Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 239  —  8. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (fjarfundir nefnda).

Frá minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Kórónuveirufaraldurinn hefur orðið þess valdandi að á Alþingi hefur reynst nauðsynlegt að taka upp ný vinnubrögð líkt og víða annars staðar í samfélaginu. Þurft hefur að grípa til tímabundinna ráðstafana til að tryggja samfellu í störfum fastanefnda þingsins, þar sem afbrigði hafa verið veitt frá ákvæðum um mætingarskyldu nefndarmanna og ályktunarbærni nefndarfunda. Minni hlutinn tekur undir mikilvægi þess að koma afmörkuðum heimildum til fjarfunda í fastara form og styður því megininntak frumvarpsins.
    Í greinargerð er lögð áhersla á að frumvarpið feli ekki í sér almenna heimild til handa þingmönnum að taka þátt í nefndarfundum með fjarfundarbúnaði, heldur sé tilgangurinn að opna fyrir slíkt þegar sérstaklega stendur á. Þær ástæður sem taldar eru upp í 1. gr. eru í eðli sínu ólíkar.
    Í fyrsta lagi má telja sóttvarnarástæður, sem eru megintilefni frumvarpsins. Sú heimild er eðlileg ráðstöfun til framtíðar til að koma í veg fyrir að smit berist á milli þingmanna þegar svo árar.
    Í öðru lagi eru ástæður sem fella mætti undir óviðráðanleg og ófyrirsjáanleg ytri atvik, svo sem vegna samgöngutruflana eða þegar fundir eru haldnir utan starfsáætlunar. Hvort tveggja er dæmi um óvæntar aðstæður sem koma í veg fyrir að þingmenn – sérstaklega þeir sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins – geti mætt til funda við Austurvöll.
    Í þriðja lagi er svo um að ræða tilvik sem minni hlutinn leggst gegn að felld verði undir undanþáguheimild 1. gr. Þar er um að ræða heilsufarsástæður sem varða þingmanninn sjálfan og veikindi barna eða annarra aðstandenda.
    Ef veikindi þingmanns eru þess eðlis að hann er rólfær en vill forðast nærveru við samstarfsfólk sitt, félli slíkt undir sóttvarnarástæður ákvæðisins. Ef veikindin eru hins vegar þess eðlis að hann er einfaldlega veikur heima fyrir, eða veikindi barns eru þess eðlis að því þurfi að sinna, þá er eðlilegt að umgangast þau veikindi líkt og annað vinnandi fólk myndi gera og mæta ekki til vinnu. Í því sambandi má minna á að allir nefndarmenn geta kallað inn varamenn í nefndum, þannig að veikindi eins þingmanns eiga ekki að standa nefndastarfi fyrir þrifum.
    Undanfarið hefur orðið bylting í notkun fjarfunda í samfélaginu öllu. Margar jákvæðar breytingar sem leiðir af henni festa sig vonandi í sessi. Að sama skapi þarf að hafa vakandi auga á þeim breytingum sem kunna að hafa neikvæðar afleiðingar. Þar má nefna hvernig mörkum á milli vinnu og einkalífs hættir til að mást út þegar vinnan er komin inn á heimilið. Ef sú þróun gengur enn lengra og fólk á vinnumarkaði væri hvatt til að sinna vinnu heiman frá sér þrátt fyrir veikindi sín eða barna sinna væri það bakslag fyrir veikindarétt fólks. Alþingi er ekki hefðbundinn vinnustaður að þessu leyti og eiga rök um réttindi á vinnumarkaði ekki við starf þingmanna. Hins vegar skiptir máli að Alþingi gangi fram með góðu fordæmi, frekar en að opna á heimild til afsals veikindaréttar.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Orðin „heilsufars- eða“ og „eða veikinda aðstandenda“ í 1. efnismálsl. 1. gr. falli brott.


Alþingi, 21. október 2020.

Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.